Eftir messu, sunnudaginn 11. september kl. 12,15, verður opnuð sýning á verkum Áslaugar Thorlacius og Finns Arnars Arnarsonar í safnaðarheimili Neskirkju. Listamennirnir hafa unnið verk sérstaklega fyrir rými og umhverfi kirkjunnar auk þess sem þau hafa unnið með fermingarbörnum að gerð listaverks.
Áslaug sýnir stórar teikningar af fjöllum og fjallshlíðum þar sem við blasir ægifegurð um leið og háski fjallanna er undirliggjandi. Hún settist undir kirkjuvegg á fjórum stöðum á Vestfjörðum; Bolungarvík, Flateyri, Ísafirði og Súðavík og skissaði fjöllin sem gnæfa þar yfir. Teikningarnar í Neskirkju vann hún síðan úr þessum skissum. Í einfaldleika sínum og tærri fegurð minnir form fjallanna á byggingarform kirkna um leið og óhjákvæmilegt er að leiða hugann að mannlífinu sem kúrir undir fjöllunum og hefur fengið að upplifa háska þeirra.
Finnur Arnar hefur komið fyrir tötralegum vinnuskúr við kirkjuna. Innan úr kirkjunni má sjá inn í skúrinn en þar gefur að líta innsetningu eftir listamanninn. Í skúrnum má sjá ummerki eftir einhvern sem þar hefst við. Umhverfið ber vott um einsemd en einnig trú og samband við æðri máttarvöld. Um leið og skúrinn er vettvangur daglegs lífs veltir hann upp spurningum um trúrækni og tilbeiðslu og þá umgjörð sem við höfum skapa trúarlífi. Finnur vann einnig ljósmyndaverk með fermingarbörnum í Neskirkju. Ljósmyndin er af hlutum sem börnin komu með í fermingarfræðsluna og hafa tilfinningalegt gildi fyrir þau.
Áslaug og Finnur hafa starfað að myndlist frá því að þau útskrifuðust ú Myndlista- og handíðaskóla Íslands vorið 1991. Þau hafa sýnt verk sín víða, bæði saman og sítt í hvoru lagi. Finnur hefur auk þess gert fjölda leikmynda og hannað sýningar fyrir söfn. Sýning þeirra í listasafni ASÍ síðastliðið vor vakti nokkra athygli en þá unnu þau með börnum sínum fjórum. Finnur Arnar er höfundur verksins „Vits er þörf þeim er víða ratar” sem margir þekkja af háskólatorgi Háskóla Íslands.
Í safnaðarheimili Neskirkju eru settar upp sýningar eftir núlifandi listamenn þær standa að jafnaði í þrjá til fjóra mánuði.
Nánari upplýsingar veita:
Áslaug Thorlacius s: 820121
Finnur Arnar Arnarsson s: 8995590
Sigurður Árni Þórðarson s: 8622312