Messa og barnastarf kl. 11. Sameiginlegt upphaf. Safnaðarfólk, organisti og kór Hallgrímskirkju heimsækir Neskirkju. Prófasturinn, sr. Jón Dalbú Hróbjartsson prédikar, sr. Þórhildur Ólafs þjónar fyrir altari ásamt sr. Erni Bárði Jónssyni. Messuþjónar aðstoða. Organisti Hörður Áskelsson. Mótettukór Hallgrímskirkju leiðir söng og flytur söng. Barnastarf með söng og sögum, brúðum og leik. Súpa, brauð og kaffi á Torginu að messu lokinni.

Í ár eru liðin 70 ár frá því að þrjú prestaköll voru stofnuð út úr Dómkirkjuprestakalli árið 1940 en það voru Nes-, Hallgríms- og Laugarnesprestaköll. Nú standa yfir viðgerðir í Hallgrímskirkju hið innra og því verður söfnuðurinn á faraldsfæti í janúar og heimsækir nágrannasöfnuði.

Tökum vel á móti vinum okkar úr Hallgrímskirkju!