Jesús sagði þrungna sögu um mann sem týndist en kom til sjálfs sín, fannst! Þetta er saga um lífið og raunar okkur öll. Erum við týnd, hver er týndur og hvernig? Um eitt hundrað manns komu í biblíumat í dag til að íhuga þessa sögu, njóta samfélags og réttarins. Biblían er matarmikil og gjöful. Uppskriftin fer hér á eftir.
Biblíumatur í Neskirkju
Týnda syninum fagnað
Fyrir 6
800 gr fitulítið ungnautakjöt
2 msk furuhnetur
2 msk estragon
1 tsk basilika
1 tsk rósmarín
2 tsk Maldonsalt
1 tsk svartur pipar
4 msk ólívuolía
15 smátt skornar döðlur
3 msk þurrkaðir ávextir t.d. apríkósur eða það sem þér finnst gott!
1 stór rauðlaukur
6 hvítlauksbátar
2 perur – skornar í bita
Furuhnetur, kryddið, ólífuolía og hvítlaukur sett í matvinnsluvél, malað og úr verður þykkur grautur, má þynna með ólífuolíu. Lambakjötið skorið í 2 cm teninga sem eru settir í kryddgrautinn og séð til að allar hliðar kjötbitanna séu vel þaktar. Best er að marinera einhvern tíma, jafnvel sólarhring. Kjötið steikt á snarpheitri pönnu og þegar það er farið að brúnast er smátt skornum lauk og döðlum bætt í. Þess gætt að ekki brenni. Hráefni, sem eftir er, út í. Hiti lækkaður og til að varna bruna er vatni bætt á pönnuna. Þegar fullsteikt er, slökkvið undir og leyfið matnum að standa góða stund. Það hjálpar þurrkuðu ávöxtunum að koma til og smita út sínu bragði.
Bulgúr eða kúskús er gott meðlæti og líka litsterkt ávaxtasalat.
Skemmtileg útgáfa að skera hráefnið til þræðingar á spjót og grilla síðan.
Íhugið gjarnan Lúk. 15.11-32. Hver var týndur? Voru kannski báðir synirnir týndir? Hvað merkir veislan í sögunni og hvernig bregst faðirinn við? Í hvaða stöðu erum við og hver er faðirinn í sögunni?
Borðbæn: Gef oss í dag vort daglegt brauð. Amen.