Messan á skírdagskvöldi, fimmtudaginn 20. mars, verður kl. 20. Félagar í Háskólakórnum syngja undir stjórn Steingríms Þórhallssonar. Sr. Örn Bárður Jónsson þjónar fyrir altari og prédikar.
Að ganga til altaris á skírdagskvöld er sérstök upplifun. Skírdagskvöld er helgað minningunni um síðustu kvöldmáltíð Krists þegar hann neytti matar með lærisveinum sínum, bauð til veislu og bjó sig undir að mæta örlögum sínum. Jesús bauð þá til hefðbundinnar gyðinglegrar máltíðar en gaf henni nýtt inntak er hann skilgreindi brauðið og vínið sem sitt eigið líf.
Altarissakramentið á rætur í hinni síðustu kvöldmáltíð og er í augum kristinna manna ekki aðeins tákn um nærveru Krists heldur miklu fremur virk nærvera hans, hins fórnandi kærleika, hugsjóna, lífs, eilífðar og himins.
Messunni lýkur með því að altarið er afskrýtt og altarisgripir bornir úr kirkju. Fimm rósir eru lagðar á altarið sem tákn um sármerki Krists. Þannig er altarið haft á föstudaginn langa, án ljósa og skrauts. Altarisgripir eru síðan bornir aftur í kirkju á páskadagsmorgun.