Jón Þorsteinsson tenór og Hörður Áskelsson orgelleikari kom fram á tónleikum föstudaginn 23. nóvember en þeir félagar hafa lengi starfað saman. Þeir munu flytja tíu sálma af hljómdiskinum „Ó, Jesú, að mér snú“ sem nýverið kom út og hefur hlotið mikið lof. Einnig munu þeir flytja fimm „Geistliche Lieder“ eftir J. S. Bach. Miðaverð 1.000 kr.
Jón Þorsteinsson á að baki langan og merkan söngferil og starfaði hann árum saman við Hollensku ríkisóperuna í Amsterdam. Hann hefur alla tíð lagt sérstaka rækt við flutning kirkjutónlistar. Á liðnum árum hefur hann komið fram sem einsöngvari víða um lönd í mörgum helstu kirkju- og trúartónlistarverkum. Jón starfar nú sem söngkennari á Íslandi og í Hollandi.
Frá árinu 1982 hefur Hörður Áskelsson verið organisti við Hallgrímskirkju í Reykjavík og byggt þar upp öflugt tónlistarlíf. Hann stofnaði Listvinafélag kirkjunnar og Mótettukór Hallgrímskirkju árið 1982 og árið 1996 stofnaði hann kammerkórinn Schola cantorum. Þá hefur Hörður kennt orgelleik og kórstjórn við Tónskóla Þjóðkirkjunnar. Einnig hefur hann komið fram sem orgelleikari og stjórnandi á fjölmörgum kór- og orgeltónleikum á Íslandi, í Þýskalandi, Noregi, Frakklandi og víðar. Herði Áskelssyni hefur hlotnast margvíslegur heiður fyrir tónlistarstarf sitt. Hann hlaut m.a. Íslensku tónlistarverðlaunin árið 2001 fyrir tónlistarflutning sinn og árið 2002 var hann útnefndur Borgarlistamaður Reykjavíkur.