Mikil hátíð var í messu í Neskirkju á kristniboðsdegi. Hópskírnin var eins og á kristniboðsakrinum. Davíð Kári er á fyrsta ári, Gunnar er tæplega tveggja ára og Una er fermingarstúlka allt afar mannvænlegt fólk. Svo prédikaði Sigríður Hrönn Sigurðardóttir, guðfræðingur og kristniboði. Myndirnar sem hún dró upp frá Austur-Afríku eru sláandi. Prédikunin er hér að neðan.
Sigríður Hrönn Sigurðardóttir
Náð sé með yður og friður frá Guði föður vorum og Drottni Jesú Kristi. Amen.
Í dag er kristniboðsdagurinn. Þjóðkirkjan tekur frá einn dag á ári til að minna söfnuði landins sérstaklega á kristniboðið. Íslenskir kristniboðar hafa í marga áratugi verið við störf í Afríku. Þar hafa þeir tekið þátt í lífi og kjörum fólks. Andleg og líkamleg neyð blasir oft við.
Mig langar að draga upp nokkrar myndir af fólki í Afríku (frásögurnar eru unnar upp úr bókinni: Garja og fleira fólk á förnum vegi, sem er nýkomin út hjá bókaútgáfunni Salt ehf.):
Gamall maður situr við vegarbrún í Keníu, með fötu og eys vatni úr drullupolli sem varð til er rigndi um morguninn. Ég sé brúnan og óhreinan poll við óhreinan, rykugan malarveg, þar sem dýr og menn ganga um hópum saman. En vatnsdroparnir eru dýrmætir þessum gamla manni sem eys. Þurrkurinn hefur þjakað. Menn, skepnur og landið allt hefur stunið því að ekkert hefur rignt í níu mánuði.
Götubörn finnast í öllum bæjum og borgum sem ég hef komið til í Afríku. Þau lifa erfiðu lífi. Allt niður í þriggja ára ráfa þau um, foreldralaus og án nokkurar umhyggju. Þau berjast um hvern matarbita og slást til að fá svefnpláss á kvöldin. Þannig lifa þau eins lengi og þau halda út þar til dauðinn tekur þau, oft mjög ung.
Götubörnin hafa hvorki rúm né sængurföt og eiga lítið af fötum oftast eru það bara tuskur. Þau vefja um sig fatadruslunum þegar þau fara að sofa á kvöldin, á gangstéttum og í skúmaskotum. Ruslahaugar og ruslagámar eru víða í Afríku. Þeir þjóna sem matarbúr fyrir götubörnin. Fnykurinn er hræðilegur. Börnin finna og eta það sem aðrir kasta í ruslagámana. Jafnvel undir öllu sorpinu finnur smávaxið, einmana barn sér hlýjan svefnstað því víða eru næturnar ískaldar í Afríku.
Á einu af kristniboðssjúkrahúsunum í Eþíópíu situr ung móðir með lítið, mjög horað barn sitt, í fanginu. Angistin skín úr augum hennar. Barnið hefur verið með uppköst og niðurgang í langan tíma eins og sjá má. Ljót ör eru á maga barnsins eftir bruna. Hún eins og margir aðrir hefur farið í neyð sinni til seiðmannsins sem hefur brennt göt á húð barnsins með glóandi járnstöng til að reka út hið illa. Móðirin kemur loks til sjúkrahússins, en spurningin er hvort hún komi of seint?
Guðsþjónustu í Woito í Eþíópíu er rétt að ljúka þegar maður nokkur gengur til kristniboðans. Hann hefur litla telpu meðferðis. Hann hefur fengið skipun frá fólkinu í einu þorpanna að fjarlægja hana. Hún á að deyja, segir maðurinn mjög alvarlegur í bragði. Ástæðan er sú að mamma hennar á aftur von á barni áður en búið er að draga tönn úr neðri gómi telpunnar. Siðurinn segir að bæði fóstrið og barnið verði að deyja. Þorpsráðið skipaði mér að fara burt með hana. Ég hefði átt að fara til fjallsins og losa mig við hana þar eða kasta henni í djúpa holu við ána segir maðurinn, sem er frændi hennar.
Hann hefur heyrt að kirkjan taki á móti börnum sem eiga að deyja og finni góð heimili fyrir þau. Frændinn fer heim og litla stúlkan, eins og hálfs árs, stendur eftir grátandi. Hún er ein og yfirgefin í heiminum.
Mamma og pabbi hennar geta ekkert gert og enginn af ættmennum hennar getur hjálpað henni. Hún er dáin fyrir þeim, hún á ekki lengur rétt á að lifa. Þannig eru reglur þjóðflokksins. Ef þau hlýða ekki geta andar forfeðranna gripið til ráða sem eru enn verri. Enginn þorir að brjóta gegn valdi og kröfum andanna.
Við sjáum að vandi þessa fólks er mikill. Neyð þess er átakanleg.
Gamla manninn vantar vatn. Götubörnin vantar heimili, menntun, mat og umhyggju. Móðirin þarfnast uppfræðslu, hún þarf að losna undan valdi seiðmannsins. Hún þarf að hætta að óttast forfeðraandana. Foreldrar litlu telpunnar sem átti að deyja þurfa að losna úr myrkri fáfræði og því sem sumir kalla hindurvitni, þar sem myrkravöld ráða svo miklu. Og án efa er miklu, miklu meira sem þetta fólk vanhagar um.
Í Biblíunni segir Guð okkur að við eigum að elska náunga okkar, hann sé eins og við.[1] Fólkið sem ég var að segja ykkur frá er nefnilega eins og við með tilfinningar og þrár, berskjaldað og auðsæranlegt. Það hefur þörf fyrir kærleiksríkt mannlegt samfélag, vera elskað og metið einhvers. Foreldrarnir syrgja börnin sín sem verða að deyja. Napurt tómið og tilgangsleysið nístir hjörtu götubarnanna. Óttinn er lamandi og skorturinn deyðir.
Getum við séð okkur sjálf í aðstæðum þessa fólks?
Hve heitt við hefðum þráð hjálp í þeirra aðstæðum. Hversu oft hugsaði ég ekki á þeim 11 árum sem ég átti heima í Keníu: Hve heppin ég er að hafa fæðst á Íslandi!
Guð elskar þau eins og okkur. Þau eru sköpuð til samfélags við Guð alveg eins og við. Sköpuð til að þekkja Guð, elska og njóta vináttu Guðs.
Jesús kallar okkur til að láta okkur varða meðbróður okkar og systur. Það er okkur hollt, bæði nauðsynlegt og þroskandi, að finna til með þeim. Jesús kallar okkur til að draga ekki gluggatjöldin fyrir, slökkva ekki á neyðinni, snúa okkur ekki undan eða ypta öxlum og gera ráð fyrir að einhver annar hjálpi. Að segja ekki: Mér kemur þetta ekki við.
Í guðspjalli dagsins er okkur sagt að Jesús hafi ferðast um og séð fólkið og hann kenndi í brjósti um það af því að það var hrjáð, umkomulaust og hafði engan að leita til. Og Jesús læknaði það. Hann kom með lækningu, græðslu og nýja von inn í líf þess. Jesús sá fólkið.
Veistu, hve mikil þörf okkar er að einhver sjái okkur, taki eftir okkur og láti sig varða um okkur. Jesús sá einstaklingana, snerti þá og líf þeirra breyttist. Hann nálgaðist þau í kærleika sem börn Guðs.
Þessu þráir kristniboðið að miðla áfram til þeirra sem ekki hafa enn fengið vitneskju um Jesú. Veistu, Jesús sér þig líka. Í hans augum ert þú dýrmætur eða dýrmæt og einstök.
En Jesús Kristur gerði meira, hann kenndi og prédikaði. Hann sagði fólkinu að hann hefði komið til að gefa líf sitt sem lausnargjald fyrir alla. Jesús Kristur er Guð en gerðist maður vegna okkar, tók á sig brotin okkar, skömmina, vanræksluna og vonskuna allt þetta sem við köllum synd dökku hliðar mannlífsins hann tók það á sig og gerðist brotamaður og dó vegna þess á krossi. Í staðinn gaf hann okkur réttlæti sitt svo að við mættum lifa. Komið til mín, segir hann, með áhyggjur ykkar og það sem þjakar því að ég vil gefa ykkur hvíld. Við þurfum ekki að hylja eða fela hver við erum. Hann þekkir okkur, veit allt um okkur og elskar okkur samt skilyrðislaust. Við fáum að byrja upp á nýtt með hreint sakavottorð. Hann rekur engan frá sér sem til hans kemur. Í fylgsnum hjartna okkar fáum við að mæta honum og segja: Fyrirgefðu mér Jesús og allt verður nýtt. Í brauðinu og víninu mætir hann okkur, við tökum við heilögu lífi hans í efnunum og líf okkar hreinsast. Þetta er guðlegur leyndardómur. Hann tekur á sig það sem er okkar og við fáum það sem er hans: réttlæti, líf, gleði, frið hann fyrirgefur og fyrirgefning hans er algjör. Með opinn faðminn tekur hann á móti okkur í skírninni, kvöldmáltíðinni og aftur og aftur alla daga lífs okkar þegar við biðjum til hans. Í upphafi messunnar var skírn þar sem Jesús tók á móti þeim sem skírð voru, fólki á öllum aldri, eins og víða í Afríku nema þar eru hóparnir yfirleitt stærri.
Í skírninni hefst ganga okkar með Jesú. Í fylgd með honum rötum við réttu leiðina gegnum lífið og heim til Guðs að ævi lokinni því að ha
nn er vegurinn, sannleikurinn og lífið. Þetta er fagnaðarerindið sem Jesús boðaði fólkinu og líf þess breyttist. Og enn í dag breytir þessi boðskapur lífi þeirra sem heyra og taka við honum. Ég hef fengið að sjá með eigin augum hvernig þessi boðskapur hefur breytt lífi tugþúsunda á starfssvæði kristniboðsins í Keníu. Hefur þú tekið við þessum boðskap? Jesús er boðskapurinn, hann er lífið.
Mig langar að segja ykkur hvað ungmennin tvö sögðu sem komu til Íslands fyrir nokkrum árum frá kirkjunni okkar í Pokot í Keníu. Þau heimsóttu ýmsa skóla hér og kynntust ungu fólki. Í heimsókn sinni í Kennaraháskólanum voru þau spurð að því hvað væri það besta sem kristniboðið hefði gert í Pókot. Ungmennin þurftu ekki að hugsa sig um eitt andartak heldur svöruðu um hæl að það allrabesta sem íslensku kristniboðarnir hefðu fært þeim, væri fagnarðarboðskapurinn um Jesú Krist. Nemendur Kennaraháskólans setti hljóða við þetta svar. Svar sem enginn bjóst við að fá. Því að í Pokothéraði hefur kristniboðið reist heilsugæslustöðvar, kirkjur og fjöldann allan af skólum, bæði grunnskóla og menntaskóla. Ný tækifæri hafa skapast samt verður það ómerkilegt í samanburði við lífið sem þau hafa eignast í Guði. Því fagnaðarboðskapurinn leysir fjötra og færir von, oft inn í vonlitlar aðstæður.
Fólkið í Afríku þarfnast Jesú. Hvergi vex kirkjan jafn ört og þar. En hvað með okkur hér? Hver er afstaða okkar til hans? Þarfnast þú Jesú Krists?
Við erum jú stödd í kirkju hans í dag. Þetta hús er helgað honum, hann er hér. En gerum við okkur grein fyrir því að hann er persónulegur og býður okkur vináttu sína? Hefurðu mætt persónunni Jesú Kristi? Hefur hann fengið að snerta líf þitt, hefur kærleikur hans fengið að bræða hjarta þitt? Hann þráir að halda utan um okkur og annast, dvelja með okkur og hlusta á okkur. Það sem meira er, hann fær aldrei nóg af okkur.
Hvílík forréttindi eru það að fá að tilheyra Jesú. Tökum þátt í kristniboðsstarfinu, biðjum fyrir bræðrum okkar og systrum í Afríku, leggjum okkar að mörkum og gerum fleirum kleift að njóta þeirra forréttinda sem við njótum.
Dýrð sé Guði, föður, syni og heilögum anda um aldir alda. Amen.
Meðtakið postullega kveðju:
Náðin Drottins vors Jesú Krists, kærleiki Guðs og samfélag heilags anda sé með okkur öllum. Amen.
Guðspjallið:
35Jesús fór nú um allar borgir og þorp og kenndi í samkundum þeirra. Hann flutti fagnaðarerindið um ríkið og læknaði hvers kyns sjúkdóm og veikindi. 36En er Jesús sá mannfjöldann kenndi hann í brjósti um hann því menn voru hrjáðir og umkomulausir eins og sauðir er engan hirði hafa. 37Þá sagði hann við lærisveina sína: Uppskeran er mikil en verkamenn fáir. 38Biðjið því Drottin uppskerunnar að senda verkamenn til uppskeru sinnar. Matt 9.35-38
Prédikun í Neskirkju á kristniboðsdegi 11.11. 2007.
[1] hebreska merkingin á 3 Mós., 19.18