Það er nú einn það mesti heiður sem manni hlotnast í lífinu að starfa í sóknarnefnd! sagði Margrét Sigurðardóttir þegar hún var spurð hvort hún gæfi kost á sér. Já, já, ég er til“ sagði hún og svo var hún á aðalfundi sóknarinnar kosin til sóknarnefndarstarfa ásamt fjórum öðrum.
Það er nú einn það mesti heiður sem manni hlotnast í lífinu að starfa í sóknarnefnd! sagði Margrét Sigurðardóttir þegar hún var spurð hvort hún gæfi kost á sér til starfa í þágu Neskirkju. Já, já, ég er til sagði hún og svo var hún kosin sem varamaður sóknarnefndar Neskirkju á aðalfundi 10. júní.
Sóknarnefnd Nessóknar er ábyrg fyrir mikilvægu starfi fyrir fólk á öllum aldri. Kirkjustarfið er ekki aðeins milli 11 og 12 á sunnudagsmorgnum heldur alla daga vikunnar og frá morgni til kvölds. Vegna umfangs verður umsýsla æ meiri. Mikill fjöldi starfar og kemur í safnaðarheimilið og kirkjuna og mikilvægt að í sóknarnefnd starfi fólk með fjölbreytilega reynslu, menntun og hæfni til að stýra rekstri sóknar, sem veltir á sjöunda tug milljóna á ári.
Mikil endurnýjun hefur orðið í sóknarnefnd síðasta árið. Í fyrra urðu formannaskipti og í ár voru fimm nýir sóknarnefndarmenn kjörnir. Auk Margrétar voru kjörin Auður Styrkársdóttir, Pétur Pétursson, Ragnheiður Margrét Guðmundsdóttir og Þórdís Ívarsdóttir.
Kristinn Jónsson, oft kenndur við KR, Sveinn Þorgrímsson, Thomas Möller og Inga J. Backmann létu af störfum og er þeim þökkuð margvísleg og góð störf í þágu safnaðarstarfsins. Inga heldur reyndar áfram að stýra röggsamlega kór eldri borgara, Litla kórnum, enda þurfa menn ekki að sitja í sóknarnefnd til að syngja!
Það er af sem áður var að karlar réðu öllu alls staðar. Í sóknarnefnd Neskirkju eru konur í meirihluta og líka í varanefnd. Fjöldi í sóknarnefndum fer eftir stærð sókna og Nessókn er sú næst-fjölmennasta á Reykjavíkursvæðinu. Fjórtán manns eru aðal- og varamenn í sóknarnefnd. Formaður er Ingibjörg R. Guðmundsdóttir og varaformaður Hanna Johannessen. Benedikt Sigurðsson gegnir ritarastörfum en Gríma Huld Blængsdóttir er gjaldkeri. Ný í aðalnefnd er Droplaug Guðnadóttir.
Já, það er heiður að fá að starfa í sóknarnefnd. Og það er heiður fyrir Nessókn að njóta góðs fólks, góðs safnaðarstarfs og blómstrandi mannlífs. Guð gæti Vesturbæinga á sóknar- og sumarvegum.