Rúmlega eitthundrað manns mættu í sund að morgni sumardagsins fyrsta en Vesturbæjarlaugin bauð öllum ókeypis í sund. Neskirkja, skátafélagið Ægisbúar og NeDó héldu utan um stundina og mikil ánægja var meðal sundlaugagesta með þessa uppákomu. Myndirnar eru bjartar, líkt og að þær séu teknar um hásumar en það var napurt við bakkann í sólinni.
Rúmlega eitthundrað manns mættu í sund að morgni sumardagsins fyrsta en Vesturbæjarlaugin bauð öllum ókeypis í sund. Neskirkja, skátafélagið Ægisbúar og NeDó héldu utan um stundina og mikil ánægja var meðal sundlaugagesta með þessa uppákomu. Myndirnar eru bjartar, líkt og að þær séu teknar um hásumar en það var napurt við bakkann í sólinni.
Fyrir helgistundina var dreift plöstuðum skærgulum messuskrám sem flutu á vatninu á meðan Ari Agnarsson spilaði á harmonikku sumarlag fyrir sundlaugargesti. Sigurvin Jónsson æskulýðsfulltrúi hóf stundina með þeim orðum að sú bjartsýni sem fær þjóð svo norðarlega til að halda fyrsta sumardag um miðjan apríl er fullkomlega í takt við fagnaðarboðskap kirkjunnar, sem boðar páskasól og fagnaðaraugu á lífið. Eftir inngangsorðin var lesin vorbæn sr. Kristjáns Vals Ingólfssonar.
Drottinn Guð, skapari alls sem er, eins og þú vekur náttúruna alla til nýs lífs á hverju vori og endurnýjar ásjónu jarðar, þannig viltu einnig endurnýja okkur og gjöra nýja jörð og nýjan himin þar sem réttlætið ríkir. Lífga okkur, börn þín, og vek okkur af svefndrunganum, gef okkur kraft og kjark trúarinnar, svo að við þorum að trúa og rísum upp til nýs lífs með þér, fyrir Drottinn Jesú Krist, bróður okkur og frelsara. Amen
Töluvert var sungið af sumarlögum og sálmum en skemmtilegast var að fylgjast með hópnum syngja Höfuð herðar, hné og tær í grunnu lauginni en seinni orðin heyrðust illa í kafi. Sr. Sigfús Kristjánsson skátaforingi og sr. Þorvaldur Víðisson predikuðu í 90 sekúndur hvor og lögðu báðir útaf sumarstefjum. Sigfús ræddi um hvernig sólin minnti hann á Guð og Þorvaldur ræddi um það þegar Jesús sló til grillveislu með lærisveinum sínum í 21. kafla Jóhannesarguðspjalls.
Sigrid Österby listakona kom færandi hendi á stundina með sól sem hún hafði saumað úr gömlu rúmteppi og komum við til með að nota hana í barnastarfi kirkjunnar. Eftir helgistundina var farið í leiki í lauginni, blautbolaboðhaup, sæhestakapphlaup og útgáfu af stórfiskaleik sem nefnist hákarl, hafmeyjar og marbendlar. Þegar sundlaugargestir komu uppúr biðu þeirra vöflur og djús í boði sunddeildar KR.
Við þökkum starfsfólki Sundlaugar Vesturbæjar og sundlaugargestum kærlega fyrir okkur.