Á laugardaginn 14. apríl sóttu leikskólar í Neskirkjusókn og Dómkirkjusókn fræðsludag hér í kirkjunni og var samtals 18 leikskólum boðið. Dagurinn var vel sóttur og mikil ánægja var með þetta framtak. Við tókum fullt af myndum sem hægt er að skoða á myndasíðunni.
Á laugardaginn 14. apríl sóttu leikskólar í Neskirkjusókn og Dómkirkjusókn fræðsludag hér í kirkjunni og var samtals 18 leikskólum boðið. Markmið dagsins var að veita fræðslu um sjálsstyrkingu í starfi, í þeirri von að það styðji og styrki það góða starf sem starfsfólk leikskólanna er að vinna. Dagurinn var vel sóttur og mikil ánægja var með þetta framtak. Við tókum fullt af myndum sem hægt er að skoða á myndasíðunni.
Húsið opnaði með kaffi og sódavatni fyrir þá sem komu snemma en um 10 hófst eiginleg dagskrá með skemmtilegum leik sem sr. Þorvaldur Víðisson miðborgarprestur stýrði. Fengnar voru 14 konur af hinum ýmsu leikskólum til að leysa sameiginlega það verkefni að leggja á gólfið kústskaft með fingrunum einum saman. Það var ótrúlegt að fylgjast með því að þegar konurnar reyndu í sameiningu að leggja fingur á plóg leitaði stöngin upp á við og það tók þær drjúga stund þar til hún lækkaði flugið. Eftir leikinn bauð sóknarprestur Neskirkju fólkið velkomið og síðan ræddu sr. Þorvaldur og Sigurvin Jónsson æskulýsfulltrúi um samstarf kirknanna og leikskólanna í hverfunum.
Fyrra erindið hélt sr. Petrína Mjöll Jóhannesdóttir en það bar heitið ,,Það vex sem að er hlúð. Petrína fjallaði um mikilvægi þess að eiga sterka sjálfsmynd og hvernig að við getum í lífi okkar hlúð að okkur sjálfum. Í lok erindis síns las hún upp stórskemmtilegan texta um hvernig að allt það sem skiptir máli, lærum við á leikskóla: Við eigum að deila með öðrum, vera sanngjörn, leggja okkur í hádeginu, þvo okkur um hendur og rosa gott er að fá mjólk og kökur í kaffitímanum 😉
Eftir léttan hádegismat hélt Halla Jónsdóttir aðjúnkt við Kennaraháskóla Íslands erindi sem nenfndist ,,Í sátt og samlyndi. Halla fjallaði um grunnþætti sjálfsstjórnar, samskipta, samhyggðar og sáttar. Í umræðum kom fram áhugi meðal gesta á umfjöllun um aðkomu trúfélaga að leikskólum í ljósi fjölmenningarsamfélagsins en það er sérsvið Höllu. Það er von okkar að endurtaka leikinn að ári og vonandi getum við tekið fyrir það efni þá.
Í lok dagsins var haldin bænastund þar sem beðið var fyrir öllum leikskólum í sóknunum tveimur, starfsfólki, börnum og fjölskyldum. Sr. Sigurður Árni Þórðarsson prestur í Neskirkju leiddi stundina og flutti bráðskemmtilega hugleiðingu um það hvað er mikilvægt í lífinu.
Við í Neskirkju og Dómkirkju viljum þakka fyrir komuna og sérstaklega fyrir hvað allir voru jákvæðir og glaðir.