Á föstudaginn langa kl. 14 verður flutt í Neskirkju Dagskrá um þjáningu og lausnir. Byggist hún upp á lestrum úr píslarsögu Krists og Passíusálmum sr. Hallgríms Péturssonar auk tónlistar. Meðal lesara verður Einar Már Guðmundsson, rithöfundur.
Dagskránni er ætlað að leiða huga okkar að tilgangi og merkingu þjáningar Krists og tengslum félagasamtaka sem takast á við þjáningu náungans í samtímanum og leitast við að skapa með virkni sinni betra og réttlátara þjóðfélag.
Að þessu sinni koma félagar úr SÁÁ og taka þátt í dagskránni. SÁÁ er eitt margra félaga sem vinna gegn böli og þjáningu.
Áður hafa félagar úr Krabbameinsfélaginu, Amnesty International, Hjálparstarfi kirkjunnar og Geðhjálp tekið þátt í sambærilegri dagskrá.
Á milli lestra flytur sönghópurinn Rinnaciente tónlistaratriði undir stjórn Steingríms Þórhallssonar, organista. Söngvarar: Hallveig Rúnarsdóttir, sópran og Hrólfur Sæmundsson, bassi ásamt fleirum.
Á skírdagskvöld verður atlari kirkjunnar afskrýtt og allir gripir þess bornir úr kirkju. Fimm rósir verða skildar eftir á nöktu altarinu sem tákn um sármerkin fimm á líkama Krists. Rósirnar verða enn á altarinu á föstudaginn langa en þá drúpa þær höfði og minna þannig á þjáninguna og dauðann.
Meðan lesið verður úr píslarsögunni og Passíusálmunum verður varpað upp á vegg myndum Barböru Árnason er hún teiknaði út frá sálmum sr. Hallgríms Péturssonar.